Kolbeinsdalur

er einn af mínum uppáhaldsstöðum. Hann er umkringdur háum fjöllum og úr þeim falla hvítfyssandi ár, um hann liðast Kolbeinsdalsáin gruggug og grett í gljúfrum en breiðir úr sér þegar utar dregur. Um dalinn eiga þeir leið sem ætla að fara Heljardalsheiði og þaðan er leið á Tungnahrygg. Annars er þetta aðallega dalur hestanna í dag, afrétt bæja í Viðvíkursveit og Hólahreppi hinum fornu þangað sem hrossum er smalað í júlí og til Laufskálaréttar í lok september. Dalurinn er grösugur og grænn enda var þar töluverð byggð fyrr á öldum sem sjá má á rústum og bæjarhólum um neðanverðan dalinn, en einungis standa hús í Smiðsgerði og Unastöðum í dag. Um daginn var verið að veita leyfi fyrir fornleifakönnun á fornbýli í dalnum þar sem nú heitir Bygghóll og verður væntanlega hægt að lesa eitthvað um það í Byggðasögu Skagafjarðar þegar þar að kemur.

sumar2008 057

Við systurnar höfum tekið okkur nokkrar góðar dagstundir í að ganga sem leið liggur slóðann frá Fjalli, sem er um það bil um miðbik dalsins og fram á tunguna þar sem Tungnahryggur rís og sést á myndinni hér að ofan. Þetta er auðveld ganga á láglendi, en drjúglangt. Fært er á jeppa allavega fram að göngubrú yfir á Ingjaldsmýrar, þ.e. brú yfir Kolbeinsdalsána. Þarna er Eygló systir með Ingjaldshnúk í baksýn.

sumar2008 053

Helsti farartálmi þeirra sem velja að ganga á láglendinu er Lambáin sem steypist niður rétt áður en komið er að göngubrú yfir Kolbeinsdalsána yfir í tunguna. En eins og sést þá vefst það nú ekki fyrir hraustu göngufólki!

sumar2008 074

Hinir sem vilja klífa fjöll geta skoðað Kolbeinsdalinn frá öðrum sjónarhornum t.d. af Elliða eða gengið fram Víðinesdal og yfir Almenningsháls, nú eða úr Svarfaðardal yfir Heljardalsheiði eða farið Tungnahrygg. Ég mæli eindregið með fyrsta kortinu um Gönguleiðir á Tröllaskaga í ferðina og reyndar allar ferðir um þessar slóðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband