Færsluflokkur: Ferðalög

Hofsós á sumarkvöldi

er hreint yndislegur. Við fjölskyldan skelltum okkur í tælenskan mat á veitingahúsinu Sólvík - mæli með því, frábær matur og notalegur staður. Það er reyndar ekki alveg augljóst með tælenska matinn, matseðillinn er frekar hefðbundinn íslenskur en Einar kokkur er meistari í thai cuisine svo það er um að gera að tékka á því hvort austurlensk veisla verði ekki töfruð fram. img_1119.jpg

Hjaltadalur

lækur í Hjaltadaler næstur á daladagskrá okkar systranna. Í fyrrasumar tókum við Kolbeinsdal í nokkrum áföngum en nú er það Hjaltadalur. Lögðum upp frá Hólum í sól og sunnanvindi, skildum bílinn eftir við Hagakot sem eru gömul beitarhús sunnan við Hofsána og gengum svo guðsgrænan Hólahagann fram á móts við Reyki. Þetta er upphafið á leiðinni yfir Hjaltadalsheiði - sem er meira fyrir fólk í fjallamennsku. Að ganga um grundir í Hólahaganum er fyrir fólk á öllum aldri, friðsælt og fallegt, sér fram á Hjaltadalsjökul þegar lengra dregur, lækir fossa af brún og Hólahrossin skreyta landslagið. Það er samt eins og með Kolbeinsdalinn, drjúglangt að ganga alla leið fram í dalbotninn. En þeim degi er vel varið! Alveg upplagður dagstúr fyrir fólk sem í gistingu á Hólum, reyndar er Kolbeinsdalurinn það líka. Það þarf bara að gæta sín á að Hofsáin er óbrúuð og ekki víst að nema stærri bílar fari yfir hana - allavega var þó nokkuð í henni í gær 12. júlí 2009.

stráin á þekjunni

ber í kvöldroðann núna eitt kvöldið rétt um það leyti sem fer að vora í lofti á Hólum í HjaltadalStráin á þekjunni

Á Hólum í Hjaltadal

er logn og blíða. Fann þessa stemmningu eftir Elísabetu Jökulsdóttur á vefsíðu Háskólans á Hólum.

Fuglatalning

ársins frestaðist þar til á sunnudaginn var. Frábært veður, sjaldan verið betra skyggni. Við Helgi gengum frá Lóni norður í Brimnesland. Sólin lágt á lofti í suðrinu og Drangey ýmist bleik eða gullslegin. Þetta er nú ekki beinlínis gönguleið, sérstaklega neðan garðs á Bakka þar sem maður er á blábrúninni - ekkert fyrir lofthrædda. Sáum enga skrýtna fugla, bara usual suspects hávellu, æðarfugl, hrafna, skarfa, máva og svo fylgdu okkur auðvitað selir fyrir forvitni sakir.

Hólar í Hjaltadal

eru á kafi í yndislegum jólasnjó! Í gær var felld niður kennsla í grunnskólunum norðanlands í fyrsta sinn í vetur. Matsalurinn í Háskólanum á Hólum fylltist af ungu fólki með eplakinnar, því fólk bröltir nú milli húsa þó það sé bylur. Ég fór í göngutúr í gærkvöldi, myrkur og fjúk, óð lausamjöllina í lær - hlýt að hafa haft gott af þessu...

leikhúsferð

er málið í skammdeginu. Við hjónin vorum að þvælast á Akureyri og keyptum í bríaríi afsláttarkort og skelltum okkur á Músagildruna í leiðinni. Ég hafði þrælgaman af henni og fannst flott það sem einhverjir kunnu ekki að meta; að það er stutt í grínið í miðju blóðbaðinu...

Svo náðum við þessari einu sýningu á Paris Nights sem fór framhjá okkur einsog margt annað sunnan heiða og það var sko skemmtilegur frönskutími! Áður en haldið var heim í snjó og hálku kíktum við aðeins á kaffihús, enda viðeigandi - blöstu þá ekki við þessar yndislegu rósirghnov08 017


brölt um holt og móa

- ég þurfti að finna eitt grátt og annað brúnt hross um helgina. Í haustregni, þannig að allar lautir urðu eins og grátt hross og allir sæmilega stórir steinar eins og brúnt hross, allavega álengdar. Þetta varð hinsvegar harla góður göngutúr, gafst tækifæri til að æfa þúfnagang og teyma skrattann þegar ég fann þá félagana Brún og Grána. Reyndar ákvað ég að bjóða Grána uppá virðulegri kost, að teymast við hendi þannig að við gengjum svona samsíða að svo miklu leyti sem tvífættur og ferfættur koma því við. Þetta leit svolítið þannig út að við værum þarna á gangi saman, frekar en að Gráni væri teymdur heim í hólfið sitt sem hver annar skömmustulegur lúser. En það breytti því náttúrlega ekki að hin hrossin skömmuðu hann fyrir að yfirgefa hópinn, mér fannst ég heyra einhvern orða það við hann hvort hann vissi ekki að hann væri hjarðdýr? 


tungl veður í skýjum

yfir Hagafjallinu - þessi ferð var nú ekki löng, bara útí garð í tunglskininu. Svolítið dramatískt ástand, kannski við hæfi þessa dagana. En ekkert hjálpar betur til að átta sig á samhengi hlutanna en að fara út og finna tengslin við náttúruna. tunglokt2008 003

það er fallegt á Skagaströnd

- af einhverjum ástæðum hef ég komið oftar til Skagastrandar undanfarnar vikur en í meðalári. Get alltaf dáðst að útsýninu yfir Húnaflóann, Borgarvirki blasir við í suðri og Strandafjöllin í norðvestrinu. Mest útsýnið úr þorpinu er af Spákonufellsborg, viðeigandi að skoða hana og um daginn sá ég fína leiksýningu sem Spákonuarfur stendur fyrir - byggða svona með getgátum í stórar eyður - á sögunni um Þórdísi spákonu sem nam land undir Spákonufelli.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband