í berjamó

kemst maður í nána snertingu við náttúruna og það er ekki síðri upplifun að vera í berjamó en að borða berin. Hér á Hólum er mikil spretta í ár og nágrannarnir hafa allir sína uppáhaldsstaði og uppáhaldsber; sumum finnst engin ber merkileg nema aðalber séu, aðrir eru fyrir bláberin og einstaka eins og ég alveg sólgin í krækiber. Þau eru nú ekki víða notuð í veröldinni enda heldur smá - jafnvel tunnuber eins og maður kallaði vel þroskuð og stór krækiber í den. Reyndar fékk ég gesti frá Falklandseyjum fyrir nokkrum árum sem voru aðdáendur krækiberjanna því heima hjá þeim er skyld jurt með rauðum berjum. En ég hafði aldrei heyrt um hvít krækiber fyrr!

könguló, könguló

vísaðu mér á berjamó! Annars þarf varla aðstoð frá köngulónum í ár. Allt krökkt af berjum allsstaðar. Kannski mamma hafi bara verið að reyna að innræta mér jákvætt viðmót gangvart köngulóm - ekki skil ég svona við nánari athugun á fullorðinsárum að þær hafi áhuga á berjum. Þær eru ekki á jurtafæði.
mbl.is Nú er tíminn fyrir berjamó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

hestaferðin í ár

var farin í Borgarfjörð í blíðu veðri og góðum félagsskap. Það var svo heitt að hrossin tóku sér siestu sumar2008 117 meðan fólkið fékk sér hressingu.

sumar2008 115 


haldið uppá afmælið

með því að fara út að ganga í Reykjavík. Helst að skoða eitthvert hverfi sem þið hafið ekki skoðað lengi. Um helgina röltum við hjónin um vesturbæinn og gægðumst í garða sem við mundum eftir sem krakkar - og gerðum allskonar uppgötvanir. Það er ekki síður myndrænt að sjá kíkja í hvönn, kerfil eða eldliljur og riddarhjörtu í gömlum görðum í Þingholtunum en í þröngum götum gamalla höfuðborga erlendis. Blómaker á ljósastaur á Skólavörðustígnum er jafnfallegt og í Köben. Kettirnir í Reykjavík eru jafnmakindalegir og félagar þeirra í Amsterdam. Kvöldsólin er allstaðar falleg - sjá þetta myndaalbúm sem ég rakst á af afmælisbarninu


mbl.is Til hamingju með afmælið, Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

sokkahlífar á sjóinn

- nei það var ekki alveg svo slæmt. En mér var óvænt boðið í siglingu við Vestmannaeyjar í sumarbyrjun - sko ekki um verslunarmannahelgina - og ég var nú ekki alveg með rétta útbúnaðinn. Þeir sönnuðu sig þó við þessar aðstæður sem aðrar rauðu skórnir frá Vilnius! Set bara mynd af þeim með því ég var ekki með myndavél til að fanga fuglalífið, bergið ótrúlega eða stemmninguna við saxófónleik í Sönghelli - mæli bara með því að þið skellið ykkur í siglingu við fyrsta tækifæri.rauðir skór

Kolbeinsdalur

er einn af mínum uppáhaldsstöðum. Hann er umkringdur háum fjöllum og úr þeim falla hvítfyssandi ár, um hann liðast Kolbeinsdalsáin gruggug og grett í gljúfrum en breiðir úr sér þegar utar dregur. Um dalinn eiga þeir leið sem ætla að fara Heljardalsheiði og þaðan er leið á Tungnahrygg. Annars er þetta aðallega dalur hestanna í dag, afrétt bæja í Viðvíkursveit og Hólahreppi hinum fornu þangað sem hrossum er smalað í júlí og til Laufskálaréttar í lok september. Dalurinn er grösugur og grænn enda var þar töluverð byggð fyrr á öldum sem sjá má á rústum og bæjarhólum um neðanverðan dalinn, en einungis standa hús í Smiðsgerði og Unastöðum í dag. Um daginn var verið að veita leyfi fyrir fornleifakönnun á fornbýli í dalnum þar sem nú heitir Bygghóll og verður væntanlega hægt að lesa eitthvað um það í Byggðasögu Skagafjarðar þegar þar að kemur.

sumar2008 057

Við systurnar höfum tekið okkur nokkrar góðar dagstundir í að ganga sem leið liggur slóðann frá Fjalli, sem er um það bil um miðbik dalsins og fram á tunguna þar sem Tungnahryggur rís og sést á myndinni hér að ofan. Þetta er auðveld ganga á láglendi, en drjúglangt. Fært er á jeppa allavega fram að göngubrú yfir á Ingjaldsmýrar, þ.e. brú yfir Kolbeinsdalsána. Þarna er Eygló systir með Ingjaldshnúk í baksýn.

sumar2008 053

Helsti farartálmi þeirra sem velja að ganga á láglendinu er Lambáin sem steypist niður rétt áður en komið er að göngubrú yfir Kolbeinsdalsána yfir í tunguna. En eins og sést þá vefst það nú ekki fyrir hraustu göngufólki!

sumar2008 074

Hinir sem vilja klífa fjöll geta skoðað Kolbeinsdalinn frá öðrum sjónarhornum t.d. af Elliða eða gengið fram Víðinesdal og yfir Almenningsháls, nú eða úr Svarfaðardal yfir Heljardalsheiði eða farið Tungnahrygg. Ég mæli eindregið með fyrsta kortinu um Gönguleiðir á Tröllaskaga í ferðina og reyndar allar ferðir um þessar slóðir.


Kolka

rennur til sjávar í Kolkuós í austanverðum Skagafirði. Nokkuð ofan við ósinn mætast árnar Kolbeinsdalsá og Hjaltadalsá. Þær eru báðar jökulskotnar, sérstaklega Kolbeinsdalsáin sem kemur úr Tungnahryggsjökli, sín kvíslin hvoru megin við Tungnahrygg. Það var magnað að sjá litbrigðin í ánum þar sem þær mættust og ekki síður að sjá hvernig Skagafjörður allur var í ólíkum litum eftir því hvar framburður Héraðsvatnanna og Kolku lá. Myndin er af ármótunum á heitum sumardegi, svo það sést vel hvað árnar eru ólíkar. Hjaltadalsáin er ljósblá en hin kolmórauð. Það

Kolka


í Eyjafirði

fórum við mæðginin skemmtilegan safnarúnt fyrir nokkrum árum. Við byrjuðum í Laufási og tókum okkur góðan tíma bæði í að skoða torfbæinn reisulega en ekki síður í frábært kaffihlaðborð sem stendur örugglega enn fyrir sínu í sumar. Mestum tíma eyddum við þó í Safnasafninu á Svalbarðsströnd því það höfðaði til okkar beggja með sínum skrýtna og skemmtilega safnkosti, yndislegu bókahorni og listsýningu - ég var að rekast á kynningu á yfirstandandi sýningu og langar að kíkja á hana. Það verður líka gaman að sjá hvernig til hefur tekist með stækkun húsnæðisins - síðast þegar ég kom var enn verið að leggja síðustu hönd á breytingarnar. Mæli með því að vegfarendur um þjóðveg 1 hægi á sér og heimsæki skrýtna fólkið sem stendur fyrir dyrum úti, alltaf jafn stillt í sínum myndastyttuleik. Sérstaklega þeir vegfarendur sem hafa auga fyrir því furðulega, fyndna og einlæga - eða næfa og ef þú lesandi góður vilt forvitnast um hvað það er, þá er Safnasafnið staðurinn. Reyndar luma Eyfirðingar á öðru skrýtnu safni; Smámunasafninu frammi í Eyjafjarðarsveit. Það er allt öðru vísi en merkileg upplifun þó, einhverskonar innileg upphafning á dóti - hlutum sem mætti líka líta á sem óttalegt drasl en eru hér sett fram sem efnisleg verðmæti.


ég var túristi í Reykjavík

í einn dag í síðustu viku. Það var að mörgu leyti fjarskalega notalegt, rölti um miðborgina í glampandi sól og hita og settist svo sólarmegin í Vallarstrætinu með hvítvínsglas við öldurhús. Þar sem ég hef nú einsett mér að horfa á björtu hliðarnar í þessu bloggi vísa ég á hitt bloggið mitt um ákveðnar áhyggjur sem sóttu að mér. En meðal þeirra jákvæðu hugsana sem flugu um kollinn á mér þar sem ég sat og sleikti sólina var samanburður á aðstöðu minni til að njóta sólardagsins fyrr og nú. Þegar ég bjó í Reykjavík á níunda áratug síðustu aldar þekktust vart útikaffihús og þegar sólin heiðraði miðborgina með geislum sínum var engin aðstaða til að njóta hennar önnur en gangstéttar og grasið græna við Austurvöll. Fólk reif sig úr fötunum og fleygði sér með föla skanka hvar sem var. Nú er aðstaða til að sitja úti komin víða og Kaffi París stendur undir nafni.

tilefnið

er þó ekki bara hækkandi eldsneytisverð heldur líka það að njóta ferðalaganna betur. Það er alltof algengur ferðamáti í fríum okkar íslendinga að taka börnin okkar í gíslingu í aftursætinu og þjóta  langar vegalengdir eftir veðurspánni án þess að gefa okkur tíma til að stoppa almennilega og kynnast þeim stað sem við erum stödd á. Ég held að strákurinn minn hafi talað fyrir munn flestra barna þegar hann bað okkur einu sinni að "stöðva bílinn og fara og gá hvort við sjáum ekki eitthvað fagurt" Hann var svolítið hátíðlegur í bernsku og það besta var að þetta var nú bara á sveitavegi fram í Skagafjarðardölum og það sem við blasti var ósköp venjulegt íslenskt holt en þegar við vorum komin uppá holtið birtist fallegt gil, berjalaut og úr varð ein af þessum góðu ferðaminningum fjölskyldunnar. Það hefði verið svo auðvelt og gerist mun oftar - að fara hjá.
mbl.is Ferðavenjur breytast lítið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband